Nú varð hann reiður

Birgitta Jónsdóttir, einn af þingmönnum okkar í Borgarahreyfingunni, minntist á Parísarklúbbinn á Alþingi í dag, Steingrímur J. varð reiður og telur hana hafa gefist upp í baráttunni til þess að bjarga landinu.

Kæri Steingrímur, það er hræðilegt að hugsa til þess að sennilega endar þetta allt í því að við verðum í þeirri stöðu að þurfa að leita hjálpar ef við viljum halda áfram að halda uppi því heilbrigðis og menntakerfi sem við höfum vanist.

Ef það þýðir að við þurfum að leita til Parísaklúbbsins þá tel ég að heilsa okkar og menntun barna okkar vegi meira en stoltið. 

Horfumst í augu við vandræðin, horfumst í augu við allt það klúður sem hefur verið gert hér, setjum ekki hausinn í sandinn. Skrifum undir samninginn, en felum ekki fyrir þjóðinni hvað það mun kosta okkur.

Og hugrakka Birgitta, bravó fyrir að þora að tala um það sem skiptir máli og koma með spurningarnar sem enginn þorir að spyrja.


Betra er seint en aldrei

Ég skora á Ríkisstjórnina að skrifa ekki undir nema með því skilyrði að ef ágreiningur kemur upp (sem er ekki ólíklegt), verði farið fyrir aðra dómstóla en þá bresku, t.d. Evrópudómstólinn.

Í samninginn vantar einnig ákvæði um að ef við getum ekki borgað þá verði ekki hægt að leita til ábyrgðar Ríkisins án þess að gefa rúm til þess að mega semja um skuldina á betri veg. Við getum þá leitað til "Club de Paris", (hér á ensku : "Paris Club"). (breytt 3. júlí)

Betra er seint en aldrei, hljóta Bretar að hugsa núna, því ef allt fer á versta veg þá sýnist mér að Bretar geti komið með fiskiflotann sinn og farið að veiða í kringum landið. Ætli við þurfum þá að borga þeim til þess að hafa aðgang að fiskinum ?

Ég persónulega tel að við VERÐUM að skrifa undir samning, en getum við skrifað undir samning(inn) með þessum ákvæðum um Ríkisábyrgð, sem gefur ekki rúm til þess að leita til hjálpar ef allt fer á versta veg.


mbl.is Icesave samningi mótmælt á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meintir glæpamenn

Hér er góður pistill eftir Sigrúnu Davíðsdóttir, þar sem hún ræðir um hver auðvelt geti verið að frysta eignir meintra glæpamann.

Það er mjög hollt að lesa þetta.


Hvað gerðist ?

Ég vil gjarnan trúa því að okkur standi ekki annað til boða en að skrifa undir þennan samning. Eflaust blæðir fleiri en einum við það og eftir að hafa hlustað á þáttinn "Vikulok" á laugardaginn var, þá blæðir enn meir.

Þar kemur fram að sendiherra okkar í Brussel, Stefán Haukur Jóhannesson, hafi tekist að fá Frakka til þess að vera "málamiðlarar" og var þá talað um 2,2 % vexti. 

HVAÐ gerðist sem leiddi til þess að þetta GERSAMLEGA klúðraðist.

Óhæfir hermenn í skotgröfum, sem höfðu það eitt til málsins að leggja að hafa verið sendir í "hörðustu MILLIRÍKJADEILU Íslands" vegna þess að ....... 

Ég vil svör :

  • hverjir nákvæmlega voru í (fyrstu) sendinefndinni ?
  • hver var staða hvers og eins ?
  • hverjir tóku ákvarðanirnar ?

Ef fjármálaráðherra okkar var undir þrýstingi í byrjun nóvember á "Fjármálaráðherra fundi EES" í Brussel, vegna "memorandum of understanding" sem var skrifað undir í byrjun október, átti hann hreinlega að segja "stopp hér, ég þarf tíma, ég þarf hjálp".

Það er þó hægt að koma í veg fyrir ALGJERT klúður með því að vera 100 % örugg um að í samningnum sé ákvæði sem segir að "möguleiki sé á því að endursemja eftir fimm ár". Ef það er ekki þá held ég að allir muni vita hvers vegna við hreinlega getum ekki samþykkt þetta.

Ég er ekki lögfræðingur, en Elvira Mendez Pinedo er sérfræðingur EES samningsins, dósent við HÍ. Hún bendir á að ESB pólitík gengur ekki út á það að gera ríki fátæk, heldur er stefna þeirra frekar að byggja upp efnahag þjóða. (takk Elvíra)

Verum ekki með minnimáttarkennd, stöndum fast á okkar rétti, sýnum að hægt sé að semja við okkur, en án þess þó að láta VAÐA yfir okkur.


mbl.is Icesave-ábyrgð úr ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er með trompin í hendi ?

Við, Íslendingar, eigum það skilið að það sé hæft fólk við stjórn á þjóðarskútunni. Henni eiga að stýra einstaklingar sem valda þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera kosinn til valda.

Samfylkingunni og Vinstri Grænum var sýnt þetta traust. Þeir sem kusu Samfylkinguna vilja láta leiða sig inn í ESB. Þeir sem kusu VG vilja að svo verði ekki. Það lítur út fyrir að Samfylkingin sé sterkari, enda eiga þeir forsætisráðherrann, Jóhönnu Sigurðardóttir, og hún virðist gera ALLT sem hún telur vera nauðsynlegt til að draumur fylkingarinnar rætist.

Jóhanna, þurfum við að skrifa undir IceSave reikninginn til þess að tekið verði á móti okkur í Brussel og ef svo er, Jóhanna, er það þess virði?

Ég fór á fund hjá Samfylkingunni þann 15. október síðastliðinn. Þá vorum við öll dofin, gátum sennilega ekki hugsað skýrt og vorum enn ekki farin að skilja hvað hafði gerst. Ég spurði á þessum fundi hvort ekki væri rétt að binda enda á samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Ég hafði aldrei séð hvernig það var mögulegt að Samfylkingin gæti hugsað sér, eina sekúndu, að hægt væri að vinna með þeim sem höfðu stjórnað eignarhaldsfélagi sínu Íslandi, allt of lengi og fannst mér, sem þáverandi stuðningskonu Samfylkingarinnar, ég vera stungin í bakið þegar samið var um það samstarf.

Ágúst Ólafur svaraði spurningu minni á þann veg að Samfylkingin sæi ekki ástæðu til þess að slíta ríkisstjórnina þar sem svo mikill ávinningur hefði náðst í félagslegum málum. Við vitum núna að allt það sem hafði áunnist er farið fyrir bí og kemur sennilega ekki aftur fyrr en eftir mikla mæðu og gríðarlegar fórnir að hálfu fólksins sem byggir landið okkar.

Þegar hér var komið höfðu Bretar sett á okkur hryðjuverkalög, bankarnir hrunið eins og léleg spilaborg og allir virtustu saklausir. Ef þetta sýndi mér eitthvað þá var það í það minnsta að þeir sem áttu að stjórna landinu voru annað hvort blindir eða vitgrannir.

Nú er Samfylkingin enn við völd og allt lítur út fyrir að ástandið batni ekki við þeirra stjórn. Ákafinn við að komast inn í ESB er svo mikill að ríkisstjórnin er tilbúin til þess að etja, ekki aðeins sjálfum sér heldur allri þjóðinni, á foraðið, já í stríð, sem við getum ekki unnið. Að því loknu verður búið að skuldbinda þjóðina út í hið óendanlega og hún á engan kost annan en að leita löskuð að hverju þeim fisksporði sem getur lækkað skuldirnar.

Ef eitthvað, þá hefur íslenska efnahagshrunið sýnt að lög og reglur EES samningsins eru að minnsta kosti léleg, ef ekki hreinlega gölluð. Ingibjörg Sólrún segir í DV.is í dag "Til að taka af öll tvímæli, þá var það afstaða viðsemjenda okkar innan Evrópusambandsins, að dómstólaleiðin kæmi ekki til greina varðandi Icesave-innistæðurnar. Þetta var afdráttarlaus afstaða þeirra andspænis þeim rökum íslenskra stjórnvalda að tilskipun ESB um innistæðutryggingar miðaðist við hrun einstakra banka en ekki kerfishrun í einu landi," [...] "Ef menn féllust á að fara með málið fyrir dóm væri með þeirri aðgerð einni verið að skapa réttaróvissu á öllum innri markaði Evrópu um það hvort innistæðutryggingar væru í gildi."

Ef staðreyndin er sú að "... (það) væri með þeirri aðgerð einni verið að skapa réttaróvissu á öllum innri markaði Evrópu...", þá er óskiljanlegt að samningarnefndin hafi ekki getað samið betur. Það er augljóst að, hvorki Breta né Hollendingar, og sennilega ráðamenn Brussel, vilji að farið verði með málið fyrir dómstóla, VEGNA þess að EF við vinnum málið þá hrynur bankakerfi Evrópu (í það minnsta).

Farið aftur að semja, kærið ykkur ekki um ESB, (verðið er of hátt), og komið tilbaka með samning sem við ráðum við. VIÐ erum með besta trompið í okkar hendi og það er óþarfi að láta eins og Bretar og Hollendingar hafi unnið leikinn.


Græðandi smyrsl á sárin

Það er nauðsynlegt fyrir okkur að upplýsingar um framgang mála, að sjá að unnið er að rannsókn hrunsins á þessum tímum óvissu þegar stanslausar hrakspár og slæmar fréttir dynja yfir okkur.

Það er bara að vona að ekki sé búið að skemma gögn og önnur.


mbl.is Skýrslur af 26 einstaklingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Casino Capitalism

Það verða bara allir að sjá þetta viðtal Egils við William K. Black sem var í Silfrinu í maí síðastliðnum.

Eins og allir vita sem leita sér upplýsinga þá er hægt að finna þetta hjá henni Láru Hönnu hér.


Kosning Borgarahreyfingarinnar

Í dag var haldinn auka-aðalfundur hjá okkur í Borgarahreyfingunni þar sem ný stjórn var kosin. Ég vil þakka öllum þeim sem studdu mig og verð að segja að ég sé mjög glöð með 2. sæti mitt, sem gerir mig að varaformanni hreyfingarinnar.

Þessi stjórn mun vinna að haustþingi okkar - eða Borgaraþingi, eins og sumir vilja kalla það, sem verður haldið í haust.

Enn og aftur, kærar þakkir.


Hvað er það þá ?

Ef það er ekki lausn IceS(l)aves skuldarinnar sem kemur í veg fyrir lán frá frændum okkar í austri, er eðlilegt að við spyrjum : hverju veldur ?

Er þetta vegna umsóknarinnar um aðild að ESB sem við neyðumst til þessa, eða er það eitthvað sem við, almenningur, fáum ekki, megum ekki vita ?

Endilega farið að koma fram við okkur eins og fullorðið fólk og segið okkur hvað er svona alvarlegt. Það erum við sem þurfum að borga og það er ykkar að segja okkur hvers vegna.


mbl.is Lausn Icesave ekki forsenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búum við í sama landi ?

Ég sé rautt og/eða svart þegar ég les þetta :

"Samkvæmt upplýsingum sjóðsins er erfitt að útskýra af hverju færri kjósa að greiða upp eða inn á lánin sín nú en í byrjun árs. Viðskiptavinir hans gefi ekki ástæðurnar upp."

Hverjir í sjóðnum gefa frá sér þessa yfirlýsingu ? Eða er það blaðamaðurinn sem er að misskilja ? Ég efa ekki að við erum mörg sem gætum upplýst sjóðinn "um ástæðurnar".

Þess vegna spyr ég : Býr þetta fólk ekki í sama landi og við ?


mbl.is Æ færri greiða upp íbúðalánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband