Ef ekki er búið að selja allt

Kannski það sé þess vegna sem lá svona mikið á að sækja um aðild, áður en allar auðlindir okkar verða komnar í einkaeigu. Það verður athyglisvert að sjá hvernig ESB lítur á kvótakerfið okkar, og á ég þá sérstaklega við framsal kvótans.

Mig grunar að þeir taki upp málstað almennings frekar en kvótakónganna. Og það verður áhugavert að sjá hvernig Hollendingar og Bretar taka á móti aðildarumsókn okkar.


mbl.is Össur: Ísland hefur margt að bjóða ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirrtir stjórnmálamenn

Er það kannski það sem þetta snýst allt saman um ?

Meðan á kosningarbaráttunni stóð var ég oft undrandi vegna yfirlýsinga frambjóðenda NV kjördæmisins, (sennilega hefur þetta verið eins í öllum öðrum kjördæmum) og hugsaði (oftast í hljóði) um það hvernig hægt væri að segja bara hvað sem er. Það var sett út á það við mig hvað ég var stuttorð, ég héldi ekki fast í orðið þegar mér var gefið tækifæri á því að tjá mig og ég reyndi að bera það fyrir mig að ég segði bara það sem ég vissi, ekki það sem ég héldi eða léti mig dreyma um, ég viðurkenni að ég vissi ekki mikið um það hvernig bjarga ætti Íslandi. Mér til málsbóta má taka fram að þetta var fyrsta kosningarbaráttan sem ég tók þátt í, en vonandi ekki sú síðasta.

Ég hélt mig því aðeins tilbaka og lét hinn alkunna Gunna Sig. sjá um að tala, því eins og allir vita, þá kann hann að tjá sig. 

Eitt sinn byrjaði ég ræðu á þessum orðum : Góð kosningarbarátta, gengur ekki út á það að lofa upp í ermina á sér. Hún gengur út á það að bjóða upp á alvöru lausnir á vandamálum hvers tíma. Við þetta bætti ég svo að ef einhvern tíman hafi verið nauðsyn að segja sannleikann þá var það einmitt núna (sem sagt í síðustu kosningum).

Nú eru liðnir 3 mánuðir frá kosningum og ég er farin að skilja hvað þetta gengur út á : Segja hvað sem er, hvar sem er, það skiptir engu máli hvað, höfum þetta bara nógu spennandi og æsandi, því öllu er gleymt í allsherjar minnisleysi eftir kosningarnar.

Við sem sluppum við minnisleysið rámar samt í loforð eins og "skjaldborg", "rannsókn", "lýðræði" o.s.frv.

Mig rámar einnig í að það hafi verið talað eitthvað um "allt upp á borðið", en sennilega hef ég misskilið hvað átt var við með því. Ég hélt í einfeldni minni að það væri skylt sannleika og heiðarleika.

Mikið var ég saklaus.

Steingrímur J. og Össur Skarphéðinsson leyfa sér að segja að IceSave og ESB séu ekki tengd, að þetta sé bara ekki hægt að vera með svona upphrópanir úti í Hollandi. Það hafi aldrei verið rætt um það að við yrðum að skrifa undir IceSave til þess að fá aðildarumsókn okkar í ESB samþykkta. Og þeir virðast vera hissa á uppþotinu.

Það má vel vera að vinir okkar Bretar og Hollendingar samþykki umsókn okkar, en þeir geta líka séð til þess að henni verði hafnað. Það er þeirra að meta og vega hvernig best sé að bregðast við ef svo færi að IceSave samningurinn verði ekki samþykktur. Ekki Steingríms og Össurar.


Er einhver hissa ?

Þegar sótt er um aðild að Evrópusambandinu þarf fyrst að ganga frá milliríkjadeilum. Ég á erfitt með að skilja þennan æsing vegna blaðaskrifa í Hollandi, því hér erum við og tjáum okkur fram og aftur um Icesave, AGS og ESB. Hollendingar hljóta líka að lesa þessi ummæli okkar og það er eðlilegt að þeir séu farnir að gera sér grein fyrir því að sá möguleiki sé fyrir hendi að IceSave samningurinn verði felldur.

Þeir hafa því bent á þá augljósu staðreynd að aðildarumsókn okkar sé til einskis ef samningurinn verður ekki samþykktur, sama hvað við viljum.

Aftur á móti er líka hægt að athuga þann möguleika að fara í mál vegna þess hvernig staðið var að samningnum og benda á þann þrýsting sem hefur verið í gangi til þess að fá okkur, þjóð á hnjánum, til þess að gangast við HVAÐA SAMNING SEM ER. 

Hollendingar, Bretar, AGS og aðilar ESB hljóta líka að vera hvumsa yfir því að EKKERT hafi enn verið gert af okkar hálfu til þess að ganga beint að verki hvað varðar þá sem komu okkur í þennan vanda. Það voru EKKI Hollendingar og Bretar, heldur ekki Indverjar eða Kínverjar í Hong Kong.

Maddof er þegar kominn í fangelsi, búið er að uppljóstra um Stanford og frysta eigur hans, a.m.k. í Bretlandi, en hér ganga menn um götur og fljúga milli landa eins og ekkert hafi í skorist og við ásökum alla aðra um vandræði okkar.

Það má heldur ekki gleyma því að samningsnefnd okkar fór út í umboði Alþingis. Hvað þýðir það ? Eins og ég lít á málið þýðir það að þeir voru með fullt vald til þess að semja í nafni íslensku þjóðarinnar.


mbl.is Vilja ganga lengra en Verhagen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndarmál ?

Þremenningar Borgarahreyfingarinnar hafa næstu viku til þess að upplýsa okkur um leyndarmálið.

Ef ríkisstjórnin neitar almenningi aðgang að upplýsingum er eitthvað hjákátlega óeðlilegt við Ríkisleyndarmál.

Ég tel því nauðsynlegt að umræða um það fari fram í fjölmiðlum og á bloggi. Ekki væri verra að almenningur talaði um það sín á milli og hugleiddu málið, hvað vilja þeir að farið sé langt með leyndarmál sem ætti að koma öllum við ?

Ég er stolt af Þráni

Ég lýsi yfir stuðningi við Þráinn Bertelsson fjórða þingmann okkar sem lét ekki ginnast í þeim stjórnmálaleik sem fram fór í hinum ýmsu skrifstofum Alþingis.

Stefna Borgarahreyfingarinnar gefur skírt til kynna stuðning hennar um aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hreyfingin fagnar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Það má segja hvað sem maður vill um það að ESB aðildarviðræður hefðu ekki verið í stefnu"skrá" okkar, það kom skírt fram í kosningarbaráttunni hjá öllum frambjóðendum okkar að við teldum réttast að leyfa þjóðinni að gera upp hug sinn með samningin á hreinu.

IceSave málið er svo handleggur út af fyrir sig og ég spyr mig hvað það er sem er svo alvarlegt að leggja í veð heiðursmannasamkomulag til að koma í veg fyrir það. Ef alþingismenn okkar (hér tala ég um alla alþingismenn) sverja eið um að leka ekki út upplýsingum sem þeir fá í hendurnar, ella eigi þeir á hættu 16 ára fangelsisvist, spyr ég mig einnig hvað það er sem almenningur má ekki vita og þá hvenær hann fær þær upplýsingarnar. 

Ég sé ekki að hægt sé að fela fyrir okkur upplýsingum sem koma okkur öllum við, okkur sem þurfum að borga brúsann sem glæpamenn á lausu hafa steypt þjóðinni í.


Langt ferðalag að hefjast.

Ég lýsi yfir ánægju minni yfir niðurstöðu atkvæðagreiðslu Alþingis um að sækja um aðild að Evrópusambandinu, og að þetta hafi náðst þrátt fyrir ótímabærar upphrópanir Birgittu og Þórs um málið.

Þau hafa sennilega eitthvað fyrir sér í sínu máli en tímasetningin var ALRÖNG og við í Borgarahreyfingunni höfðum lofað kjósendum okkar að styðja aðildarviðræður.

Þegar þetta kemur síðan tilbaka verður tími til að hugsa okkur vel um áður en við ákveðum hvort við samþykkjum samninginn. Þó svo að heita eigi að aðeins verði um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða er ég ekki í vafa um að þingmenn okkar, hverjir sem þeir veða þá, munu fylgja hug þjóðarinnar.

Enn og aftur segji ég, sannfæring þingmanns á að snúast um hag þjóðarinnar, ekki eigin óskir.


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fylgja samvisku eða að stuðla að auknu lýðræði.

Við í stjórn Borgarahreyfingarinnar sendum út eftirfarandi yfirlýsingu :

Borgarahreyfingin gaf það skýrt út í aðdraganda kosninganna að ekki væri hægt að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, nema að undangengnum aðildarviðræðum. Niðurstaða þeirra, að lokinni víðtækri kynningu, yrði síðan borin undir þjóðaratkvæði. Var það niðurstaða hreyfingarinnar eftir miklar umræður, að þessi leið væri í anda þeirra lýðræðisumbóta sem að hreyfingin vill standa fyrir.
Stjórn Borgarahreyfingarinnar vill árétta að þetta er enn skýr stefna hreyfingarinnar. Lögum samkvæmt ber þingmönnum hreyfingarinnar hins vegar að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu.

Hvað varðar eigin sannfæringu þingmanna okkar vil ég benda á að sú sannfæring færi best samferða lýðræði.

Hér á ég við að það sem þingmaður þarf og á að hugsa fyrst og fremst um er hagur þjóðarinnar. Hans / hennar sannfæring ætti að vera sú að lýðræðið væri í fyrsta sæti, ekki eigin hugarórar/hugmyndir og óskir.


mbl.is „Bregðast trausti kjósenda"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf hann ekki hvíld ?

Ef allir forsvarsmenn allra landa væru eins og Davíð, væri erfitt að lifa. Hann kemur fram í þættinum "Málefnið" og reynir enn að telja okkur trú um það að við skuldum ekki neitt.

Fólk erlendis sem horfir á þáttinn hlýtur að spyrja sig hvernig þessi maður geti verið einn langlífasti íslenski stjórnmálamaður nútímans. Svar þeirra hlýtur þá að vera : Vegna þess að fólkið á Íslandi skilur ekki annað en íslensk / íslenska pólitík.

Kæru vinir, við erum lítill (pínulítill) hluti af alheimi. Hættum að haga okkur eins og við séum 3 eða 30 milljónir manns sem höfum frelsað heiminn.

Reynum að gera smá íslensk / alheims pólitík til að breyta til og reynum að skilja hina hliðina. Hættum að vorkenna okkur, förum að vinna. 

Heimtum að eignir séu frystar, útrásar? yfirheyrðir og helst að þeim verði bannað að ferðast frá landinu. Sýnum ALÞJÓÐ að við tökum málin í eigin hendur og að við viljum ekki láta vorkenna okkur.


mbl.is Skorað á Davíð á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytum þessu - NÚNA

Finnst Gylfa Magnússyni þetta vera eðlilegt eða er hann einungis að lýsa ástandinu ?

Hér er verið að bjarga "verðmætum" sem ekki er búið að borga......., eða hvað ? 

Samkvæmt venju sinni fer Lára Hanna vel í þetta á blogginu sínu


mbl.is Engar reglur um kennitöluflakk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin og ESB

Mikið hefur verið talað og skrifað um ræðu Birgittu Jónsdóttir um ESB og misskilning hennar hvað varðar aðildarumsókn Íslands að ESB.

Það er satt hjá Birgittu að ekkert er skráð um ESB í stefnuskrá hreyfingarinnar en hitt er annað mál að ekki var mögulegt að fara í kosningarbaráttu og sniðganga málið. Kvöldið fyrir 1. blaðamannafund okkar í Iðnó þar sem hreyfingin var kynnt var opinber stefna hreyfingarinnar mikið rædd og fékk ég viðstadda til þess að samþykkja þá stefnu sem síðan varð okkar í kosningarbaráttunni : Það er ekki fræðilegur möguleiki að kjósa um það sem við vitum ekki nóg um.

Þessi stefna var stefna hreyfingarinnar í kosningarbaráttunni og Gunnar Sig., ég sjálf og Guðmundur Andri ásamt öðrum sem voru á listanum okkar í NV. kjördæminu sögðum það á öllum fundum þar sem við vorum spurð um ESB. Ég veit ekki betur en það sama megi segja um alla þá sem voru á listum okkar að Birgittu meðtaldri.

Það er kominn tími til að treysta Íslendingum til þess að velja sjálfir, eftir að upplýsingar um kosti og galla aðildar liggja fyrir. Ég treysti ekki hagsmunasamtökum til þess að segja satt um það sem stendur okkur til boða, hvorki þeim sem eru á móti eða með aðild, en ég treysti landsmönnum til þess að geta valið um það sem þeir telja best fyrir sig og sína þegar kemur að því að samþykkja eða hafna aðild eftir að samningur liggur fyrir allra augum, opinber, með galla og kosti.

Að Birgitta tali um að fylgja samvisku sinni vegna þess að hún hafi verið kosin inn á Alþingi til þess er hennar mál en hún var kosin til þess að gera það sem er þjóðinni fyrir bestu og nota til þess þau tól og tæki lýðræðis sem fyrirfinnast hér á landi og treysta löndum sínum til að ákveða samkvæmt þeirra eigin samvisku hvað þeir vilja.

Það stendur ekki íslensku ríkisstjórninni til boða að ganga í ESB án þess að þjóðin fái að ákveða það sjálf.


mbl.is Hjáseta kann að ráða úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband