Hagsmunasamtök Heimilanna

Ég fór á fund Hagsmunasamtaka Heimilanna í Iðnó og þótti þessi fundur mjög svo upplýsandi um ástandið í landinu. Ég varð þó fyrir vonbrigðum vegna þess að ekki lítur út fyrir að það eigi að gera neitt marktækt fyrir heimilin sem eru í vanda stödd í dag.

Ég legg til að :

Ríkisstjórn Íslands komi til móts við það fólk sem  á það á hættu að vera borið út af heimilum sínum á næstu mánuðum og að neyðarlög verði sett um að óheimilt verði með öllu að fólk sé borið út frá 15. september til 15. apríl, ekki bara 2009 - 2010, heldur ætti þetta að verða að reglu.

Ríkisstjórnin ætti síðan að nota næstu sjö mánuði til þess að finna raunhæfar lausnir til þess að koma til móts við þá sem ekki geta með nokkru móti staðið undir skuldum sínum.

Ég vil bæta því við að mér finnst afar sorglegt hvernig búið er að fara með Borgarahreyfinguna, hafi ég gerst sek um að vaða um með ósannindi er ég miður mín, en tel í fullri hreinskilni að um mistúlkun hafi verið að ræða. Ég mun aldrei þola ritskoðun, hvorki á mér né frá. Að ræða hlutina og vera ekki alltaf sammála er það sem við ættum að gera, læra hvort af öðru, hlusta á hvort annað og lifa sátt með ólík sjónarmið.


Grein 11.1.2

Hvað varðar grein 11.1.2 tel ég að líta þurfi fyrst á grein 11.1.1. sem hún í raun vísar til, en hún er svohljóðandi :

11.1.1. Hlutverk frambjóðenda er að koma stefnumálum hreyfingarinnar á framfæri.

Þannig  að í raun gerir grein 11.1.2. frambjóðendum kost á því að sína í orði og verki að hann styðji með öllu þau "stefnumál" sem borin eru á borð og lofuð kjósendum.

11.1.2. Frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar skulu skrifa undir eftirfarandi heit:

Ég (fullt nafn frambjóðanda) heiti því að vinna eftir bestu getu að stefnu hreyfingarinnar eins og hún er samþykkt á landsfundi. Gangi sannfæring mín gegn meginstefnu hreyfingarinnar mun ég leitast eftir því að gera félagsfundi grein fyrir því og leggja í dóm félagsfundar hvort ég skuli víkja sæti við afgreiðslu þess máls

Það má vel vera að þetta sé ekki góð aðferð, en ekki gleyma því að annar landsfundur verður haldinn og þar mun okkur gefast tækifæri til þess að laga það sem laga þarf.

Ég tel að þau lög, sem gefa þingmönnum færi á því að yfirgefa hreyfingar og flokka og taka með sér sætin sín, séu einfaldlega ekki  nógu vel úthugsuð. Þetta er matsatriði og sennilega er kominn tími til þess að ræða þetta til hlítar eins og svo margt annað.


Framtíðin....

Nú er landsfundurinn yfirstaðinn og hefur ýmislegt verið sagt um hann. Tillaga A og tillaga B, grasrótin og grasrótin (spurning um túlkun). Það má taka það fram að á síðustu stundu kom fram tillaga C sem var mjög fín en því miður kom of seint.

Lýðræðislega var kosið um hvor tillagan væri ákjósanleg og varð þar fyrir valinu tillaga A. Það var margt í henni sem mér þótti miður og vann ég ötullega að því að gera athugasemdir og kjósa með eða á móti því sem hinir ýmsu meðlimir komu með sem breytingartillögur.

Það er Lýðræði.

Ég verð að játa að ég var vonsvikin þegar þingmenn okkar kusu að yfirgefa salinn eftir að þeirra tillaga var felld. Ég hafði gert það upp við sjálfa mig að sitja sem fastast ef þeirra tillaga hefði orðið fyrir valinu og verja eða hafna því sem þar kom fram. Margt var gott og annað miður.

Til þess er lýðræðið. Ræðum hlutina til hlítar, skoðum allar hliðar þess og síðan samkvæmt samvisku okkar, kjósum.

Þingmenn/konur okkar kusu einfaldlega að yfirgefa salinn og voru það mér mikil vonbrigði. Kæru þingmenn, notið helgina, eins og þið lofuðuð og komið síðan og látið okkur vita. Ég bíð og ég vona eftir farsælli niðurstöðu ykkar.

Lifi Borgarahreyfingin, afl þeirra sem vilja breytingar, sem treysta hreyfingunni til að vinna samkvæmt þeirra ósk. Það sem við erum ekki ánægð með ræðum við, erum ósammála, eða hver veit sammála um niðurstöður, sendum ályktanir og yfirlýsingar. En, svo það sé á hreinu :

Við komumst ekkert nema ræða saman.

Kærar þakkir til allra þeirra sem sýndu mér stuðning í dag. 
mbl.is Valgeir fékk flest atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég læt mig dreyma.....

 

Hér er hægt að sjá stóra mynd.


Áfram veginn

Þegar nýr stjórnmálaflokkur fæðist byrjar hann sem hugmynd og hugsjón í huga þess og þeirra sem dreymir um nýjar stefnur í stjórnmálum. Eftir hrunið síðastliðið haust voru margir með hugmyndir um nýja stjórnlagahætti fyrir landið og mynduðust margir hópar sem unnu að ýmsum hætti að því að koma hugmyndum á blað, hugmyndum að nýrri stefnu fyrir land á örlagatímum.

Borgarahreyfingin er afkvæmi margra af þessum hópum sem lögðu allir sitt af mörkum til að gera þennan draum okkar að veruleika. Fólk safnaðist saman á stuttum tíma til þess að bjóða fram lista fyrir alþingiskosningar. Þessi hópur samanstóð af fólki úr öllum áttum þjóðfélagsins en það sem við áttum sameiginlegt var óhugur af stjórnleysi og spillingu sem virtist hafa verið banamein þjóðarinnar, við vildum gera allt sem í okkar valdi stóð til þess að breyt.

Það gefur auga leið að þegar fólk kemur saman, án þess að þekkjast fyrir, og vinnur að einu markmiði þá geta samskiptin verið stirð á köflum. Í kosningarbaráttunni létum við ólík sjónarmið á ýmsum málum ekki aftra okkur frá því að vinna staðfastlega að markmiðinu : komast inn á þing og gera breytingar. Eins og alþjóð veit þá náðist það markmið.

En þó svo að kosningarbaráttan sé að baki þá erum við enn í sömu hreyfingunni og er vilji flestra að vinna saman í sátt því öðruvísi náum við ekki markmiðum okkar. Stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar var ekki margorðuð en öflug. Það er vitað mál að margir vildu bæta við stefnum og aðrir vildu draga úr þeim en við urðum öll sammála um þau atriði sem þar voru skráð.

Vegurinn frá kosningunum þann 25. apríl til dagsins í dag hefur verið vægast sagt brösóttur og hafa fjölmiðlar fylgst náið með erjum sem upp hafa komið innan þinghóps og milli þinghóps og stjórnar. En mikið hefur verið gert úr litlu.

Þinghópurinn samanstendur af einstökum einstaklingum, sem með mikilli vinnu og krafti allra þeirra sem stóðu að og í kosningarbaráttunni, komust inn á þing, svo til óundirbúin. Þeir/þau sem mest unnu saman fyrir kosningarnar og þá sérstaklega Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir hafa átt auðveldast með samvinnu inn á þingi. Þau tvö stóðu einnig í ströngu ásamt Akademíuhópnum sem stóð að stofnun Samstöðu og hafa því unnið lengi saman eins og flestir aðrir sem eru í Borgarahreyfingunni sem voru í hinum ýmsu hópum. Margir af þeim sem tóku þátt í starfi hreyfingarinnar komu einnig frá Lýðræðisbyltingar hópnum og þar má nefna Herbert Sveinbjörnsson, formann hreyfingarinnar sem ákvað að víkja úr fyrsta sæti í RN fyrir Þráni Bertelssyni, þar sem hann taldi Þráinn geta veitt mikinn stuðning fyrir hreyfinguna og að meiri þörf væri fyrir hann sjálfan út á landi. Það sama má segja um Gunnar Sigurðsson frá Borgarafundum, sem ákvað að leiða listann í NV kjördæminu ásamt mér og Guðmundi Andra Skúlasyni.

Við okkar sem vorum í fyrstu sætunum í NV og NA kjördæmunum unnum látlaust til að kynna okkur og keyrðum ótalmargan kílómeterinn og töluðum við frábært fólk á landsbyggðinni. Þar lærðum við einnig mikið og þá sérstaklega hvað lítið hafði verið tekið tillit til landsbyggðarinnar á Blómatímanum fyrir hrunið. Það er því ekki erfitt að skilja að stefnuskrá hreyfingarinnar þarf að bæta töluverðu á sig til þess að koma á móts við þarfir þeirra sem ekki búa á stór Reykjavíkursvæðinu.

Nú er fyrsti landsfundur hreyfingarinnar og eftir hrakfarir okkar síðastliðinn mánuð er bráðnauðsynlegt að sjá til þess að hann verði til fyrirmyndar. Á þeim fundi verða nýjar samþykktir kynntar, en Jón Þór Ólafsson hefur unnið ötullega að þeim í allt sumar ásamt mörgu öðru kraftmiklu fólki.

Verkefni stjórnar með hjálp félagsmanna er að tryggja að unnið sé í anda þeirra stefnu sem hefur verið sett. Framundan er ærið verkefni, Ísland er langt frá því að ná sér eftir hamfarir síðasta árs. Leggja þarf höfuðáherslu á mikilvægi þess að teknar verði ráðstafanir til hjálpar heimilum og fyrirtækjum.

Lýðræði er viðkvæmt. Lýðræði tekur tíma. Borgarahreyfingin á eftir að vaxa og dafna með hjálp ykkar allra sem viljið breytingar á stjórnarháttum, sýnum gott fordæmi og vinnum samkvæmt stefnuskrá okkar : fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

Ég efa ekki að allir meðlimir hreyfingarinnar, ásamt þeim fjölda sem kusu hana, hafa eina ósk : að hreyfingin dafni og stækki, að okkur takist að koma á áþreifanlegum breytingum til hins betra í stjórnsýslunni. Ég treysti öllum til þess að hafa það í huga og styðja við bakið á þingmönnum okkar og stjórninni. Þeir þurfa að finna þennan stuðning ekki sundrung. Ég treysti einnig þingmönnum okkar til þess að vinna samkvæmt stefnuskrá okkar og vona að þeir sjái hvað er hreyfingunni fyrir bestu.


Tilkynning um framboð

Þjóðin á þing

Borgarahreyfingin var stofnuð af fólki með hugsjónir og væntingar um að koma á lýðræðislegum umbótum, réttlátara samfélagi með gagnsæjum vinnubrögðum og umfram allt, heiðarleika að leiðarljósi

Slagorðið “þjóðin á þing” er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga. Þinghópur hreyfingarinnar var hugsaður sem brú frá grasrótinni þangað inn.

Að okkar mati hefur það mistekist.
Þess í stað hafa hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.

Við sem undir þetta ritum erum stolt af Borgarahreyfingunni eins og hún var hugsuð. Í stað þess að gefast upp fyrir þeim mistökum sem gerð hafa verið langar okkur að leggja okkar að mörkum til að hreyfingin finni uppruna sinn á ný og að vegur hennar verði sem mestur.

Þess vegna ætlum við að bjóða fram krafta okkar til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.

Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur.
Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.

Sem hópur höfum við sett saman grunn að stefnu þeirri sem við munum fylgja í störfum okkar og hana má skoða í tengdri skrá.

Við munum kynna stefnuna nánar á næstu dögum og á landsfundi hreyfingarinnar.

ÁsthildurJónsdóttirBjarki HilmarssonBjörg SigurðardóttirGuðmundur AndriSkúlasonGunnar GunnarssonGunnar SigurðsonHeiða B. HeiðarsdóttirIngifríður RagnaSkúladóttirJón Kr.ArnarsonLilja SkaftadóttirSigurður Hr.Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Við þurfum að fá upplýsingar,

Hverjir eru ólmir í að þetta fari allt í gegn í einum "grænum". 

Sá, sú, þeir þurfa að koma með MJÖG góð rök fyrir því að nauðsyn sé á flýtivinnu.

Í fréttum á RÚV í kvöld kom í ljós að talið væri að þetta væri besta boðið fyrir núverandi eigendur.

ÞAÐ ER EKKI ÞAÐ SEM SKIPTIR MÁLI Í DAG.

Hefur sá sem þannig mælir ekki tekist að skilja hvað kom landinu á hausinn ? Hefur sá hinn sami engan skilning á því hvað meirihluti fólks vill ?

Ég ætla að vona að Ríkisstjórnin hiki ekki við að banna þessa sölu vegna þess að hún hefur ekki verið undirbúin nógu vel. Einn mánuður (rétt rúmlega) er liðin síðan við heyrðum fyrst um Magma Energy og nú eru þeir að fá upp í hendurnar á OFUR kjörum fyrirtækið.

Með veði í því fyrirtæki ! Minnir þetta ekki fólk á ýmislegt ? 


mbl.is Tilboðið óhagstætt fyrir OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins !

Það er vonandi að þetta náist í gegn. Það er til skammar hvernig hlúið hefur verið að fjármálseigendum, hvernig fyrirtæki hafa verið stofnuð og notuð til þess í raun að svíkja undan skatti.

Þeir sem þéna minnst eiga að borga hlutfallslega minna í skatta og þeir sem þéna mest ættu að borga meira.

Allt tal um það að fólk hætti að vinna ef það þarf að borga meiri skatta er að mínu mati hræðsluáróðursrök. Nú ef svo væri raunin þá gæti það kannski skapað atvinnu fyrir fleiri !

Mér líst sérstaklega vel á "stighækkandi hátekjuskatt, þrepaskiptan stóreignar- og erfðaskatt og skattlagningu fjármagnstekna til jafns við launatekjur"

Ekki er hægt að borða peningana og þegar þjóðin stendur frammi fyrir því að hér skapist enn meira atvinnuleysi og fátækt er sjálfsagt að þeir sem geti borgað án þess að skerða lífsgæði sín þá geri þeir það.

Mun þetta fólk þá flytja erlendis ? Ég held að þeir sem hafi vinnu verði hér áfram því ekki er víst að þeir borgi minni skatta annarsstaðar. Nú ef þeir flytja er jafn líklegt að þeir gerðu það hvort heldur sem skattar séu hækkaðir eða ekki. 


mbl.is Fjármagnstekjur skattlagðar eins og laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skref eitt...

Gott framtak. Síðan er það ríkið sem fer fram á það að ekki verði borgað meira til niðurgreiðslu lána, en sem svarar 25-30 % af launum.

Við erum á réttri leið hér.


mbl.is Höfuðstóll lána verði lækkaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil...

að skuldir heimilanna verði færð í þá stöðu sem þau voru í janúar 2008,

að ríkisstjórnin setji lög um að heimilin borgi aldrei meir en því sem nemur 35 % laun í skuldir, (mætti vera 25-30%)

að ríkisstjórnin sjái til þess að fólk verði sótt til saka fyrir misþyrmingu landsmanna,

að gerð verði rannsókn á eignaupptöku ríkisfyrirtækja.

Listinn er áreiðanlega líklegur til þess að vaxa, endilega bætið við.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband