Af gefnu tilefni

Liðin vika hefur verið afar erfið fyrir Borgarahreyfinguna, stjórn hennar, og þingmenn. Eftir að einkabréf þingmanns okkar Margrétar Tryggvadóttur til Katrínar Snæhólm, varaþingmanns Þráins Bertelssonar var gert opinbert eru litlar líkur á því að sættir náist, sama hvað sáttarnefnd sú sem stofnuð var leggur mikið á sig.

Þó svo að Margrét segi að um einkabréf hafi verið að ræða er ekki lengur hægt að líta á innihald þess sem einkamál þegar 15 manna hópur hefur fengið það í hendurnar. Það nægir engan veginn að biðja fólk vinsamlegast að láta eins og það hafi aldrei séð það. Innihald bréfsins er meitlað í huga þeirra sem hafa lesið það og fer ekkert, það er sama hvað maður reynir.

Innihald bréfsins hverfur ekki svo glatt og til þess að ekki sé hægt að misnota efni þess síðar, er betra að það sé opinberað núna.

Ég vil biðja Þráinn Bertelsson afsökunar á því að hafa ekki brugðist enn fyrr við, en ég þurfti tíma til að ná áttum og vildi einnig gefa Margréti tækifæri á að breyta rétt.

Miðað við stjórnleysi það sem ríkt hefur í Borgarahreyfingunni taldi ég miklar líkur á að engin ákvörðun yrði tekin um jafn alvarlegt mál og þetta, eða það sem hefði verið enn verra, að þetta yrði rætt á opnum stjórnarfundi og Þráinn fengi fregnir af innihaldi bréfsins úr fjölmiðlum. Það var mér óbærileg tilhugsun.

Ég óska Borgarahreyfingunni velfarnaðar í bráð og lengd. Ég vona einnig að hún eigi eftir að sanna það í verki sem hún hefur svo oftar boðað í orðum. Öllum þeim sem ég hef unnið með í kraftmiklu og gefandi samstarfi vil ég þakka samskiptin og óska þeim alls hins besta.

Ég læt hér með lokið afskiptum mínum af starfi stjórnar Borgarahreyfingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég veit ekki hvað ég á að skrifa hérna kæra Lilja.... þú veist svo sem alveg hvað mér finnst um þig og þitt innlegg í hreyfinguna okkar.

xxx

Heiða B. Heiðars, 14.8.2009 kl. 11:43

2 identicon

Þetta mál allt er auðvitað með ólíkindum og furðulegt að hver stjórnarmaðurinn af öðrum limpist niður. Ég lýsi auðvitað yfir verulegri óánægju yfir þessu getuleysi stjórnarmanna. Hverju átti fólk von á þegar það bauð sig fram til þessara verka að gæsin kæmi steikt fljúgandi upp í opið ginið og skellti á ykkur smekk í lendinguni?

Fyrir utan það, hver hefur rétt fyrir sér og hver ekki, þá er þetta bréf frá Margréti furðulegt í alla staði og hvað er hún að velta fyrir sér heilsu Þráinns svo það stafar af áhyggjum í allar áttir og það við alla aðra en Þráinn sjálfan? Ég get ekki gert að því að finna til efasemda um að Mergrét kunni ekki á tölvupóst hvað þá að þetta málefni sé eitthvað sem komi henni við yfir höfuð, og hvað ætlar hún að gera í því ef hún er komin með sjúkraskrár Þráinns í hendurnar? Það er búið að kjósa manninn á þing og það er ekki undir Margréti komið að gera að engu vilja kjósenda sem kusu þráinn á þing! Ég hef kannski hef rangt fyrir mér eins og virðist vera viðkvæðið þessa dagana en heldur fynnst mér vera ólykt af svona bréfasendingum.

Síðast þegar fréttist af þingmönnum okkar og þá frá Margréti sjálfri þá var svo mikið að gera að þau sáu ekki til sólar. Misjafnt hafast mennirnir að og finna tíma til þess sem þeim þykir merkilegast viðureignar. Svo er þessi yfirlýsing Margrétar hér á síðuni þar sem fólki er ekki boðoð að svara eða tjá sig um málið mjög óeðlileg. Hver samþykkir svona vinnubrögð?

Þorvaldur Geirsson (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 13:38

3 identicon

Afsakið ég átti við yfirlýsingu Margrétar á xo.is fyrir þá sem ekki koma þaðan.

Þorvaldur Geirsson (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 13:44

4 Smámynd: ThoR-E

Er ekki verið að gera allt of mikið úr þessu máli?

fólk að segja sig úr stjórn og Þráinn hættur í Borgarahreifingunni.

Út af einhverju bréfi milli tveggja aðila þar sem Margrét lýsir yfir áhyggjum sínum af starfsfélaga. Bréfið átti aldrei að fara annað en bara til Katrínar.. þannig að ég á erfitt með að kaupa það að Margrét hafi verið að gera þetta gegn Þráni.

En var þetta ekki alltaf stefna Þráins .. að hætta í Borgarahreifingunni.

Nú er bara spurningin hvort hann taki 25% af þingstyrk hreifingarinnar og svíki kjósendurna og fari með sætið í annan flokk.

Eða geri það eina rétta og kallar inn varamann sem starfar fyrir Borgarahreifinguna.

Það verður mjög fróðlegt að sjá ... en ég efast um að Þráinn láti frá sér 6-700 þúsund krónur á mánuði ... ekki miðað við afgreiðslu hans á heiðurslaunamálinu.

En allavega.. Heiðurslauna Þráinn er hættur, þá mun hreifingin fá mitt atkvæði næst .. Þráinn var eina ástæðan fyrir því að ég kaus ekki flokkinn.

ThoR-E, 14.8.2009 kl. 13:53

5 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Takk fyrir hlý orð Heiða mín.

Þorvaldur, þú "lýsi(r) auðvitað yfir verulegri óánægju yfir þessu getuleysi stjórnarmanna". Auðvitað máttu það. 

AceR, við erum að tala um stjórnmál hér.

Lilja Skaftadóttir, 14.8.2009 kl. 14:29

6 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Ég hef ekki verið í tölvusambandi í dag og er rétt að byrja að sjá hvað hefur verið í gangi. 

Það er ánægjulegt hvað maður hefur kynnst mikið af góðu, skemmtilegu og kláru fólki í Borgarahreyfingunni.  Ég vil ekki trúa því að allt sé að hrynja.

Mig langar að biðja alla þá sem eru að spá í að hætta eða hafa hætt að gefa þessu smá tíma, þó ekki væri nema viku meðan fólk er að ná áttum.  Sjálfur er ég ringlaður, áhyggjufullur en aðalega sorgmætur.

Jón Kristófer Arnarson, 14.8.2009 kl. 15:24

7 Smámynd: Héðinn Björnsson

Er ekki einhver sem getur lagt til að hreyfingin verði lögð niður samkvæmt stefnuskrá þar sem henni hafi mistekist að koma á nokkurri sjálfsstjórn og því útséð með að hún geti náð fram markmiðum sínum?

Héðinn Björnsson, 14.8.2009 kl. 15:35

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Eigum við að láta þetta leiðindamál ganga frá hreyfingunni? Nei, segi ég, við skiptum um fólk og höldum áfram. Þetta kemur engum til góða nema hinum flokkunum og við skuldum 14 þúsund kjósendum áframhaldandi baráttu.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 14.8.2009 kl. 16:42

9 Smámynd: Kjartan Jónsson

Leitt að svona hafi farið Lilja mín. Ég varaði reyndar við því fyrir nokkru að þremenningarnir væru að eyðileggja hreyfinguna með einangrunarhyggju sinni og svikum við kjósendur sína. Nú hefur þeim endanlega tekist það.

Kjartan Jónsson, 14.8.2009 kl. 20:50

10 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Lilja,

tekur mig sárt og ég skil afstöðu þína fullkomlega. Baráttan haust verður engu lík og næg önnur verkefni framundan. 

Sjáumst!

Gunnar Skúli Ármannsson, 15.8.2009 kl. 02:29

11 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Ég er sjúklega bjartsýn og þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn. 

Lilja Skaftadóttir, 15.8.2009 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband