Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Af gefnu tilefni

Liðin vika hefur verið afar erfið fyrir Borgarahreyfinguna, stjórn hennar, og þingmenn. Eftir að einkabréf þingmanns okkar Margrétar Tryggvadóttur til Katrínar Snæhólm, varaþingmanns Þráins Bertelssonar var gert opinbert eru litlar líkur á því að sættir náist, sama hvað sáttarnefnd sú sem stofnuð var leggur mikið á sig.

Þó svo að Margrét segi að um einkabréf hafi verið að ræða er ekki lengur hægt að líta á innihald þess sem einkamál þegar 15 manna hópur hefur fengið það í hendurnar. Það nægir engan veginn að biðja fólk vinsamlegast að láta eins og það hafi aldrei séð það. Innihald bréfsins er meitlað í huga þeirra sem hafa lesið það og fer ekkert, það er sama hvað maður reynir.

Innihald bréfsins hverfur ekki svo glatt og til þess að ekki sé hægt að misnota efni þess síðar, er betra að það sé opinberað núna.

Ég vil biðja Þráinn Bertelsson afsökunar á því að hafa ekki brugðist enn fyrr við, en ég þurfti tíma til að ná áttum og vildi einnig gefa Margréti tækifæri á að breyta rétt.

Miðað við stjórnleysi það sem ríkt hefur í Borgarahreyfingunni taldi ég miklar líkur á að engin ákvörðun yrði tekin um jafn alvarlegt mál og þetta, eða það sem hefði verið enn verra, að þetta yrði rætt á opnum stjórnarfundi og Þráinn fengi fregnir af innihaldi bréfsins úr fjölmiðlum. Það var mér óbærileg tilhugsun.

Ég óska Borgarahreyfingunni velfarnaðar í bráð og lengd. Ég vona einnig að hún eigi eftir að sanna það í verki sem hún hefur svo oftar boðað í orðum. Öllum þeim sem ég hef unnið með í kraftmiklu og gefandi samstarfi vil ég þakka samskiptin og óska þeim alls hins besta.

Ég læt hér með lokið afskiptum mínum af starfi stjórnar Borgarahreyfingarinnar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband