Áfram veginn

Þegar nýr stjórnmálaflokkur fæðist byrjar hann sem hugmynd og hugsjón í huga þess og þeirra sem dreymir um nýjar stefnur í stjórnmálum. Eftir hrunið síðastliðið haust voru margir með hugmyndir um nýja stjórnlagahætti fyrir landið og mynduðust margir hópar sem unnu að ýmsum hætti að því að koma hugmyndum á blað, hugmyndum að nýrri stefnu fyrir land á örlagatímum.

Borgarahreyfingin er afkvæmi margra af þessum hópum sem lögðu allir sitt af mörkum til að gera þennan draum okkar að veruleika. Fólk safnaðist saman á stuttum tíma til þess að bjóða fram lista fyrir alþingiskosningar. Þessi hópur samanstóð af fólki úr öllum áttum þjóðfélagsins en það sem við áttum sameiginlegt var óhugur af stjórnleysi og spillingu sem virtist hafa verið banamein þjóðarinnar, við vildum gera allt sem í okkar valdi stóð til þess að breyt.

Það gefur auga leið að þegar fólk kemur saman, án þess að þekkjast fyrir, og vinnur að einu markmiði þá geta samskiptin verið stirð á köflum. Í kosningarbaráttunni létum við ólík sjónarmið á ýmsum málum ekki aftra okkur frá því að vinna staðfastlega að markmiðinu : komast inn á þing og gera breytingar. Eins og alþjóð veit þá náðist það markmið.

En þó svo að kosningarbaráttan sé að baki þá erum við enn í sömu hreyfingunni og er vilji flestra að vinna saman í sátt því öðruvísi náum við ekki markmiðum okkar. Stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar var ekki margorðuð en öflug. Það er vitað mál að margir vildu bæta við stefnum og aðrir vildu draga úr þeim en við urðum öll sammála um þau atriði sem þar voru skráð.

Vegurinn frá kosningunum þann 25. apríl til dagsins í dag hefur verið vægast sagt brösóttur og hafa fjölmiðlar fylgst náið með erjum sem upp hafa komið innan þinghóps og milli þinghóps og stjórnar. En mikið hefur verið gert úr litlu.

Þinghópurinn samanstendur af einstökum einstaklingum, sem með mikilli vinnu og krafti allra þeirra sem stóðu að og í kosningarbaráttunni, komust inn á þing, svo til óundirbúin. Þeir/þau sem mest unnu saman fyrir kosningarnar og þá sérstaklega Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir hafa átt auðveldast með samvinnu inn á þingi. Þau tvö stóðu einnig í ströngu ásamt Akademíuhópnum sem stóð að stofnun Samstöðu og hafa því unnið lengi saman eins og flestir aðrir sem eru í Borgarahreyfingunni sem voru í hinum ýmsu hópum. Margir af þeim sem tóku þátt í starfi hreyfingarinnar komu einnig frá Lýðræðisbyltingar hópnum og þar má nefna Herbert Sveinbjörnsson, formann hreyfingarinnar sem ákvað að víkja úr fyrsta sæti í RN fyrir Þráni Bertelssyni, þar sem hann taldi Þráinn geta veitt mikinn stuðning fyrir hreyfinguna og að meiri þörf væri fyrir hann sjálfan út á landi. Það sama má segja um Gunnar Sigurðsson frá Borgarafundum, sem ákvað að leiða listann í NV kjördæminu ásamt mér og Guðmundi Andra Skúlasyni.

Við okkar sem vorum í fyrstu sætunum í NV og NA kjördæmunum unnum látlaust til að kynna okkur og keyrðum ótalmargan kílómeterinn og töluðum við frábært fólk á landsbyggðinni. Þar lærðum við einnig mikið og þá sérstaklega hvað lítið hafði verið tekið tillit til landsbyggðarinnar á Blómatímanum fyrir hrunið. Það er því ekki erfitt að skilja að stefnuskrá hreyfingarinnar þarf að bæta töluverðu á sig til þess að koma á móts við þarfir þeirra sem ekki búa á stór Reykjavíkursvæðinu.

Nú er fyrsti landsfundur hreyfingarinnar og eftir hrakfarir okkar síðastliðinn mánuð er bráðnauðsynlegt að sjá til þess að hann verði til fyrirmyndar. Á þeim fundi verða nýjar samþykktir kynntar, en Jón Þór Ólafsson hefur unnið ötullega að þeim í allt sumar ásamt mörgu öðru kraftmiklu fólki.

Verkefni stjórnar með hjálp félagsmanna er að tryggja að unnið sé í anda þeirra stefnu sem hefur verið sett. Framundan er ærið verkefni, Ísland er langt frá því að ná sér eftir hamfarir síðasta árs. Leggja þarf höfuðáherslu á mikilvægi þess að teknar verði ráðstafanir til hjálpar heimilum og fyrirtækjum.

Lýðræði er viðkvæmt. Lýðræði tekur tíma. Borgarahreyfingin á eftir að vaxa og dafna með hjálp ykkar allra sem viljið breytingar á stjórnarháttum, sýnum gott fordæmi og vinnum samkvæmt stefnuskrá okkar : fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

Ég efa ekki að allir meðlimir hreyfingarinnar, ásamt þeim fjölda sem kusu hana, hafa eina ósk : að hreyfingin dafni og stækki, að okkur takist að koma á áþreifanlegum breytingum til hins betra í stjórnsýslunni. Ég treysti öllum til þess að hafa það í huga og styðja við bakið á þingmönnum okkar og stjórninni. Þeir þurfa að finna þennan stuðning ekki sundrung. Ég treysti einnig þingmönnum okkar til þess að vinna samkvæmt stefnuskrá okkar og vona að þeir sjái hvað er hreyfingunni fyrir bestu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Meira svona tal.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 22:34

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég ætla að mæta á landsfundinn og hef ég enga skoðun þangaðtil.  Ég les bara ýmislegt og ætla ég að taka mína ákvörðun á landsfundinum sjálfum hvernig ég kýs og hverja ég ætla að styðja. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.9.2009 kl. 01:16

3 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Takk fyrir þessi orð Guðríður.

Það finnst mér vera eina leiðin Jóna, við erum öll að læra hvernig hægt er að vinna saman. Það hefði kanski mátt benda á að þegar við viljum aukið lýðræði þýðir það í raun meiri vinnu því það tekur tíma.

Annars var góður fundur hjá okkur í kvöld um HS orku og Magma og þar kom margt merkilegt í ljós.

Lilja Skaftadóttir, 4.9.2009 kl. 01:58

4 identicon

LÝÐRÆÐI segirðu ! hvernig skilgreiniru kosninngabandalög þar sem fyrirfram er búið að handvelja sér "þóknannlegt" fólk ? hvernig skilgreiniru eitt 12 aðila bandalag sem missnotar nafn hreyfingar á td facebook ? hvernig skilgreinirðu "ÞJÓÐINA Á ÞING" ? er Þjóðinn á þing safn sammála bandalaga þar sem einn einstaklingur er meiri þjóð en annar ?

á ekki að skammta kynninngu fyrir hvern og einn frambjóðanda sama fyrir alla ? er eitthvað vit í sammálastjórn (svona flokks style) ?

mér finnst þið endanlega sett XO í flokks-hauginn og tekið mikið mikið niður með að stofna kosninngabandalag !

það er ekki mikil áhersla á gagnrýnishlustun og rökræðu (án þess að menn fari í fýlu og hætti að tala) fólginn í ykkar "hallarbyltingu" orðin að "flokki" innan hreyfingarinnar !

Grétar Eir (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 13:57

5 Smámynd: Dúa

Burtséð frá því hvað mér finnst um kosningabandalög Grétar þá sé ég ekki alveg hvernig fólk er að misnota nafn hreyfingarinnar á facebook. Geturðu útskýrt þessa meintu misnotkun?

Dúa, 5.9.2009 kl. 18:00

6 Smámynd: Sævar Finnbogason

Það mikilvægasta er að samþykkja tillögur samþykktahópsins á morgun!!!!!!

Sævar Finnbogason, 11.9.2009 kl. 23:56

7 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Sævar, það verður umræða og meiri umræða. Sjáumst.

Lilja Skaftadóttir, 12.9.2009 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband