Hver er með trompin í hendi ?
25.6.2009 | 17:47
Við, Íslendingar, eigum það skilið að það sé hæft fólk við stjórn á þjóðarskútunni. Henni eiga að stýra einstaklingar sem valda þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera kosinn til valda.
Samfylkingunni og Vinstri Grænum var sýnt þetta traust. Þeir sem kusu Samfylkinguna vilja láta leiða sig inn í ESB. Þeir sem kusu VG vilja að svo verði ekki. Það lítur út fyrir að Samfylkingin sé sterkari, enda eiga þeir forsætisráðherrann, Jóhönnu Sigurðardóttir, og hún virðist gera ALLT sem hún telur vera nauðsynlegt til að draumur fylkingarinnar rætist.
Jóhanna, þurfum við að skrifa undir IceSave reikninginn til þess að tekið verði á móti okkur í Brussel og ef svo er, Jóhanna, er það þess virði?
Ég fór á fund hjá Samfylkingunni þann 15. október síðastliðinn. Þá vorum við öll dofin, gátum sennilega ekki hugsað skýrt og vorum enn ekki farin að skilja hvað hafði gerst. Ég spurði á þessum fundi hvort ekki væri rétt að binda enda á samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Ég hafði aldrei séð hvernig það var mögulegt að Samfylkingin gæti hugsað sér, eina sekúndu, að hægt væri að vinna með þeim sem höfðu stjórnað eignarhaldsfélagi sínu Íslandi, allt of lengi og fannst mér, sem þáverandi stuðningskonu Samfylkingarinnar, ég vera stungin í bakið þegar samið var um það samstarf.
Ágúst Ólafur svaraði spurningu minni á þann veg að Samfylkingin sæi ekki ástæðu til þess að slíta ríkisstjórnina þar sem svo mikill ávinningur hefði náðst í félagslegum málum. Við vitum núna að allt það sem hafði áunnist er farið fyrir bí og kemur sennilega ekki aftur fyrr en eftir mikla mæðu og gríðarlegar fórnir að hálfu fólksins sem byggir landið okkar.
Þegar hér var komið höfðu Bretar sett á okkur hryðjuverkalög, bankarnir hrunið eins og léleg spilaborg og allir virtustu saklausir. Ef þetta sýndi mér eitthvað þá var það í það minnsta að þeir sem áttu að stjórna landinu voru annað hvort blindir eða vitgrannir.
Nú er Samfylkingin enn við völd og allt lítur út fyrir að ástandið batni ekki við þeirra stjórn. Ákafinn við að komast inn í ESB er svo mikill að ríkisstjórnin er tilbúin til þess að etja, ekki aðeins sjálfum sér heldur allri þjóðinni, á foraðið, já í stríð, sem við getum ekki unnið. Að því loknu verður búið að skuldbinda þjóðina út í hið óendanlega og hún á engan kost annan en að leita löskuð að hverju þeim fisksporði sem getur lækkað skuldirnar.
Ef eitthvað, þá hefur íslenska efnahagshrunið sýnt að lög og reglur EES samningsins eru að minnsta kosti léleg, ef ekki hreinlega gölluð. Ingibjörg Sólrún segir í DV.is í dag "Til að taka af öll tvímæli, þá var það afstaða viðsemjenda okkar innan Evrópusambandsins, að dómstólaleiðin kæmi ekki til greina varðandi Icesave-innistæðurnar. Þetta var afdráttarlaus afstaða þeirra andspænis þeim rökum íslenskra stjórnvalda að tilskipun ESB um innistæðutryggingar miðaðist við hrun einstakra banka en ekki kerfishrun í einu landi," [...] "Ef menn féllust á að fara með málið fyrir dóm væri með þeirri aðgerð einni verið að skapa réttaróvissu á öllum innri markaði Evrópu um það hvort innistæðutryggingar væru í gildi."
Ef staðreyndin er sú að "... (það) væri með þeirri aðgerð einni verið að skapa réttaróvissu á öllum innri markaði Evrópu...", þá er óskiljanlegt að samningarnefndin hafi ekki getað samið betur. Það er augljóst að, hvorki Breta né Hollendingar, og sennilega ráðamenn Brussel, vilji að farið verði með málið fyrir dómstóla, VEGNA þess að EF við vinnum málið þá hrynur bankakerfi Evrópu (í það minnsta).
Farið aftur að semja, kærið ykkur ekki um ESB, (verðið er of hátt), og komið tilbaka með samning sem við ráðum við. VIÐ erum með besta trompið í okkar hendi og það er óþarfi að láta eins og Bretar og Hollendingar hafi unnið leikinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:30 | Facebook
Athugasemdir
Jóhanna ætlar inn í ESB, hvað sem það kostar okkur. Samningur Íslenskra stjórvalda um IceSlave samninginn, er algjörlega til skammar. Samninganefndin virðist hafa verið skipuð algjörum undirlægjum, sem ekkert höfðu til málanna að leggja nema kannski að segja já og amen á eftir því.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.6.2009 kl. 01:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.